Gömul hugmynd að vinna með fisk
:Orn Smári hefur hannað í áratugi, unnið hjá helstu auglýsingastofum landsins og sjálfstætt í 20 ár. Verkefnin hafa verið lítil og stór, af öllum toga og fyrir allskonar fyrirtæki, allt frá frímerkjahönnun til básahönnunar.
Við básahönnun fyrir sjávarútvegssýningu í Brussel beindist hugur hans að þorskinum, okkar helstu útflutningsvöru. Til að koma þorskinum í annað og nýtt samhengi hannaði hann þorskaljósatorfu, sem varð einkenni báss Íslandsstofu í mörg ár.
Það er eitthvað þarna, í þorskinum, hugsaði hann. Skissandi og pælandi elti hann þorskinn niður í djúpið, upp á yfirborðið, inn í fiskbúð afa síns við Langholtsveginn, suður með sjó að sækja ferskan fisk með pabba sínum fyrir fiskbúðina hans við Álfhólsveginn. Stoppaði í Barðanum á Dalveginum í Kópavogi þar sem pilturinn sjálfur vann við síldarsöltun í fríi frá gaggó.
Fullur væntingar um að koma þorskaljósum á markað eftir jákvæð viðbrögð við ljósatorfunni í Brussel, byrjaði :Orn Smári að vinna heimasíðu sem gæti verið kjarninn í sölunni. Hann sýndi vinum og velunnurum til að fá viðbrögð þeirra til að vinna með conseptið áfram.
En viðtökurnar voru dræmar og ekki uppörvandi. Fólk var hreinlega ekki að sjá fegurðina sem :Orn Smári sá og tengdi ekki við conseptið sem í framhaldinu hálf lognaðist út af … en það er eitthvað þarna.
„Ég verð að þróa þetta áfram, skissa, skoða, leita og finna lausnina svo að fólk sjái það sem ég sé …“ hugsar hann.
Tveimur árum síðar fær hann símtal og býðst að taka þátt í Flikk Flakk, sjónvarpsþætti frá RÚV sem tekinn skyldi upp í Vestmannaeyjum og Höfn. Hann sló til án þess að vita mikið um hvert verkefnið væri. Reyndin var sú að þarna var fullkomið tækifæri til að vinna áfram með þorsk og aðra fiska. Hannaðar voru fiskagöngur og fiskarósir sem málaðar voru á stræti og torg ásamt saltfisk gangbraut sem þveraði umferðarmikla götu.
Fiskarnir og mynstrin voru mjög viðeigandi og svínvirkuðu á Eyjamenn. Þeir tengdu vel við litríka nútímalega útfærslu á lifibrauði sínu. En Eyjar eru jú fiskveiðisamfélag.
Aðrir landsmenn virtust ekki vera að tengja og hugmyndin um að koma mynstrunum á markað virtist vera arfa vitlaus.
:Orn Smári hélt þó áfram að hanna fiskamynstur, photosjoppaði og mátaði þau á ullarnærföt, útivistarfatnað, bolla, púða og fleiri hluti. Hannaði meðal annars loftljós sem hann nefnir Þang, rauðmaga koll í barnaherbergi og sitthvað fleira.
En gæti hann með einhverjum hætti fundið þessu farveg og komið sýn sinni áfram. Í hans augum er hafið kvótalaus auðlind þegar kemur að hönnun en markaðurinn var hreinlega ekki móttækilegur.
Mörgum árum síðar hittir hann Evu Rós í Valfossi. Mjög reynda konu í viðskiptum sem unnið hefur með íslenskum hönnuðum, framleitt og selt verk þeirra. Hún sá tækifæri í að prufa markaðinn og láta reyna á þetta. Hún þekkir vel til, er með sambönd við ýmsa framleiðendur og stingur uppá að prufa nokkur tilbúin mynstur á viskastykkjum. Þannig mætti fá raunveruleg viðbrögð sem gæfu tóninn fyrir framhaldið.
Gælunafnið á viskastykkjunum varð Fiskastykki. Framleiddar voru fjórar gerðir, umbúðir hannaðar og sala sett í gang sem hún leiðir. Fiskastykkin vekja strax athygli, fyrir mynstrin, litaval og íslenskan svip. Fyrsta upplag selst upp. Þetta er sannarlega byrinn sem þarf í seglin.
Með tveimur nýjum hvalamynstrum og búrhvalspoka síðar róa :Orn Smári og Eva að því öllum árum að gera vandað og skemmtilegt kynningarefni til að byggja undir sölu og opna leið fyrir fleiri vörur.
Verkefnið hefur hlotið nafnið Sæ:flúr og ófyrirséð hvert það leiðir, því að íslenskur fiskur er töff … sé hann vel meðhöndlaður.
En að vinna með fisk sem grafík er ekkert nýtt, því meðan drekar og ljón prýddu skjaldarmerki í Evrópu var þorskur í okkar merki sem undirstrikar mikilvægi fisks fyrir Íslendinga. Þá sögu má rekja aftur til ársins 1415, en Þorskmerkið var svo aflagt með konungsúrskurði 1903.